Kæri lesandi.
Takk fyrir að heimsækja vefinn minn sem ég set í loftið til þess að kynna framboð mitt til formennsku í BHM. Ég er staðráðinn í því að nýta tímann fram að kosningunum í maí til þess að hitta og heyra í sem allra flestum BHM félögum. Hugmyndin með vefnum er sú að setja nokkuð reglulega inn á hann það helsta sem ég heyri í þeim skoðanaskiptum. Ég mun líka reyna að skila hingað inn ábendingum sem ég á vonandi eftir að fá í símtölum eða tölvupóstum frá fólki sem vill koma vangaveltum sínum á framfæri. Þess vegna mun meira kjöt safnast á beinin hér á þessari heimasíðu á næstu vikum og fram að kosningunum. Og vonandi ekki síður eftir þær!
Ég býð mig fram til formennsku í BHM til þess að leiða bandalagið inn í spennandi tíma óhjákvæmilegra breytinga. Umbóta er þörf. Innri og ytri áskoranir í kjölfar Covid kalla á aukna samvinnu og fagmennsku innan BHM. Við þurfum að verja kjör okkar og réttindi, nýta sóknarfærin og laga bandalagið að nýjum tímum á íslenskum vinnumarkaði. BHM á að vera í stefnumarkandi hlutverki í kjaraviðræðum og setja skýr markmið um jafnrétti til launa og ábyrgðar, kjaratengda viðurkenningu menntunar og faglegt svigrúm til þess að hámarka verðmæti sérfræðiþekkingar.
Ég vil fyrst og fremst efla styrk BHM í gegnum aukið samstarf, jafnt innan bandalagsins sem út á við. Við eigum að hefja samtal við önnur stéttarfélög háskólamenntaðra um sameiginlegar áherslur og verkefni. Við eigum að ráðast í heildarendurskoðun á lögum bandalagsins og leggja um leið grunn að stækkun þess með fjölgun aðildarfélaga. Innan okkar raða þarf í senn að vera rými fyrir ólíkar áherslur í afmörkuðum málum og góður grundvöllur fyrir einhug um breiðari áherslur. Þannig getum við gert okkur gildandi sem þróttmikið afl á íslenskum vinnumarkaði.
Ég er sérfræðingur í alþjóðasamskiptum og hef lokið bæði BA og MA gráðu í þeim fræðum auk MBA gráðu í alþjóðaviðskiptum. Síðastliðin 25 ár hef ég starfað á vettvangi utanríkisþjónustunnar heima og erlendis, þ.m.t. á vettvangi Alþjóðabankans, Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna, m.a. í Afghanistan um 18 mánaða skeið, auk sendiráða Íslands í Washington og Kaupmannahöfn. Ég er forstöðumaður GRÓ, þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, og fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins. Fljótlega eftir að ég flutti aftur til Íslands árið 2019 tók ég við formennsku í Hagsmunaráði starfsfólks utanríkisþjónustunnar og í kjölfar þess var ég kjörinn formaður FHSS. Um þessar mundir leiði ég fyrir hönd félagsins viðræður um nýjan stofnanasamning fyrir Stjórnarráðið. Í því verkefni byggi ég á langri reynslu af af samningaviðræðum og flókinni samningagerð, jafnt á alþjóðlegum vettvangi sem íslenskum. Sú reynsla getur án efa skipt miklu í verkefnum mínum fyrir BHM verði ég til þeirra kjörinn.
Ég er fæddur árið 1967 og hef mikla ástríðu fyrir fjölskyldu minni og vinnu. Ég er áhugamaður um grill og góðan mat, rogast með króníska bíla- og hljóðfæradellu og syng og glamra á gítar með miðaldra hljómsveit sem reyndar hefur enn ekki slegið í gegn. Ég er kvæntur Elínborgu Þóru Þorbergsdóttur og við eigum fjögur börn og tvö barnabörn. Til viðbótar eigum við tvo hunda sem hvetja mig alla daga til þess að njóta útiveru og hreyfingar í góðum göngutúrum.
12. mars 2021